föstudagur, desember 31

Árið senn komið að lokum

Ég er búin að hafa það svo gott um jólin að ég hef hreinlega ekki nennt því að vera að krota eitthvað hérna á síðuna. En eftir vikulangt stanslaust át og langar vökunætur og daga sem hverfa jafn snögglega og þeir koma, er kanski kominn tími á að slengja inn eins og nokkrum línum.

Ég er orðinn fastagestur hjá viðgerðarþjónustu Símans i Ármula, orðin frekar pirruð á þeim stað og aumingja Þórir (eitt af andlitum þeirra út á við) fékk heldur betur að heyra það þegar ég kom rúmum hálftíma (falleg leið að segja tæpum klikkutíma) of seint á sund-stefnumótið okkar í dag, eftir 5. heimsókn mína á Símann. Var búið að lofa því i gær að ég gæti náð i nýjan síma kl hálf 4 i dag, en ég er alltaf jafn seinheppin og fór tómhennt þaðan rúmlega 5 eftir meira en klukkustunda bið - strákurinn á símanum vissi að ég væri í fríi og hefur eflaust haldið að ég hefði ekkert betra við minn tíma að gera.
Ég var voðalega fegin þegar ég rakst á Guggu fyrir utan laugina (alveg jafn sein og ég) og ekki minna glöð þegar við fundum Þóri enn í lauginni, var orðin viss um að þau væru annaðhvort löngu farin eða komin í frekar mikla fílu, en svo var sem betur fer ekki. Við skemmtum okkur konunglega í lauginni og ætlum að gera þetta að föstum lið.

Mér dauðbrá i dag þegar það gékk upp fyrir mér að það væri gamlársdagur á morgun!! tíminn ekkert smá fljótur að líða og mín ekki einu sinni komin með áramótaheit. Maður ætlar líka alltaf að gera svo mikið þegar maður kemur heim en endar oftast á að klikka á meirihlutanum, ég er samt komin með lengri lista yfir það sem ég hef EKKI náð að gera ennþá en oftast, líklega því þetta er lengra stopp og mín óstressuð. Verð nú að fara í eitthvað af þessu praktíska svo maður hafi tíma fyrir vinina þegar þeir koma úr jólastressinu og vilja leika.

Jæja, ætla að skríða upp í rúm núna og halda áfram með Kleifarvatn.
Óska hérmeð landsmönnum öllum nær og fjær, hamingju og velfarnaðar á komandi ári.

föstudagur, desember 24

Gleðileg jól

Þá er ekki seinna vænna en að skella sér i jólaskapið.

Haldiði ekki að stelpan sé bara búin að öllu, allir pakkarnir komnir í pappír, og búið að taka til. Ásta skásta og Ámundi komu i jólagrautinn til mömmu i hádeginu, og viti menn eina jólahefðin sem hefur aldrei verið brotin klikkaði heldur betur áðan, mamma tók sig til og fékk möndluna en ekki ég!

Annars nenni ég ekkert að sitja fyrir framan tölvuna i dag, hef margt betra að gera, ég vildi bara rétt óska ykkur öllum gleðilegrar hátiðar i faðmi fjölskyldunnar.

fimmtudagur, desember 23

Jólastúss

Það verður víst nóg að gera hjá mér i dag, en ég smelli nú nokkrum línum inn engu að síður. Er núna alveg búin með öll jólainnkaupin og mundi meira að segja eftir að kaupa gjöf handa sjálfri mér :o)

Ég kíkti á Ölstofuna í gær á hittinginn hans Héðins, voða gaman að fá sér pínu bjór og sjá fullt af hressu og skemmtilegu fólki. I dag á svo að baka, skreyta tréið, taka til, labba laugarveginn, heimsækja fullt af góðu fólki, ná i símann úr viðgerð, mæta i kakó og kósýheit hjá Ástu skástu (í íbúðinni sem ég skammarlega verð að viðurkenna að ég hef aldrei litið augum) og eflaust bætist eitt og annað á listann eftir því sem líður á daginn. Langar voðalega mikið í sund, en hugsa að það verði að bíða, en ég lýsi hér með eftir fersku fólki sem nennir að koma með i sund á næstu dögum.

Jæja, verd að þjóta, baðið mitt er víst að verða kalt.

sunnudagur, desember 19

Komin heim i sæluna

Komin i jólaæðið heima á klakanum - og líkar það bara vel!

Eftir skilduseinkun á fluginu kom ég heilu og höldnu heim til Íslands i gærkvöldi. Var bara stillt, skoðaði nýju íbúðina hennar mömmu og kíkti síðan við i partýí hjá sóðabrókunum til að heilsa upp á Ástu sys en lét mig nú hverfa fljótlega aftur, samt ekki fyrr en ég var búin að taka lagið i singstar... og ég sem stóð í þeirri trú að ég myndi aldrei taka lagið þar sem aðrir heyrðu til, en hver getur staðist Bob Marley (smá einkahúmor i gangi).

Eftir klippingu og litun i morgun, náðum við systurnar i þá yngstu og fórum i jólafataleiðangur, við eldri erum svo blankar að það var bara sú yngsta sem fékk að versla i þetta skiptið. Förum nú að kíkja aftur í búðirnar eftir smá stund, komum bara heim til að hlaða batteríin. Maður verður að taka þátt i veslunaræðinu eins og sönnum íslendingi sæmir :o)

Gamli síminn minn 8671482 ætti ad vera virkur núna, þannig að ef einhverjum langar að ná i mér áður en ég læt heyra i mér sjálf þá er hérmeð hægt að slá á þráðinn, annars er planið að hafa samband við fólk á morgun, má ekkert vera að því í dag.

fimmtudagur, desember 16

2 dagar i heimferð :o)

Það er aldeilis farið að styttast i það að ég verði komin heim á klakann. Ég verð sem sagt til i tjútt og tjill frá og með seinnipartinum af laugardagskvöldinu svo nú er bara að láta heyra i sér og bóka tíma :o)

Ég var hjá tannlækni i dag og komst að því að maður er aldeilis a rangri hillu ef hlutirnir snúast um það að þéna peninga, (vissi það nú reyndar, núna fékk ég það bara staðfest) heldurdu ekki að ég hafi farið með yfir 40 000 kall fyrir undir klst vinnu!! Vildi að mín tímalaun væru svipuð. Þá fengi fólk sko almennilega pakka í ár!! núna endar það líklega með að ég verð að skila öllu og fá endurgreitt, he he.

Já, annars er bara gaman að vera til. Hitti Ali og Krister og dandalaðist með þeim inni i bænum núna áðan. Ali er voða sæt og fín og komin með ágætis kúlu. Skautaferðin klikkaði samt, aumingja Berglind bara veik. Væri nú sniðugt at vera bara dugleg i staðinn og byrja að þvo og pakka núna, þá get ég leikið mér á morgun.

miðvikudagur, desember 15

Loksins, loksins, loksins

er stelpan búin i prófum!!! Frá því að vera orðið frekar fúlt er lífið allt í einu orðið yndislegt. Ég er komin með langann lista yfir hluti sem ég ætlaði að gera eftir próf, og núna verður sko tekið á því í nokkra daga, ekki seinna vænna :o)

Ég er reyndar komin með yfirbókaða dagskrá á morgun. Stelpan sem hefur hingað til verið með svo fínar tennur er komin með 2 skemmdir og þarf til tannlæknis i pyntingar i fyrramálið, ekki mikið hrifin af því. Þarf svo að kíkja í nokkrar sjúkraskýrslur en svo verður dagurinn allt í einu miklu betri - mætti halda að carlsberg væri kominn á borðið :o) Eg ætla svo á skauta með Berglindi, hitta Ali vinkonu sem er á leiðinni til Grænlands i jólafrí og svo er dansinn med julehygge annað kvöld, það ætti að bæta upp pyntingarnar.

Föstudagurinn fer líklega i búðarráp og þesshátar, date með Binna um kvöldið og ég fæ víst jólapakkann minn - hann er víst of stór til þess að druslast með hann til Íslands.

Jæja, þarna kom hann heim, heyri i ykkur seinna.

laugardagur, desember 4

Þá er það versta búið :o)

Já loksins loksins loksins er ég búin með Miljö og Arbejdsmedicin kúrsinn, hefði ég ekki álpast til að skrá mig i réttarlæknisfræðina sem ætti að liggja á næstu önn væri ég komin í jólafrí. Annars er nú stelpan meira eða minna komin i fríið, það er bara rólegur lestur framundan, jólagjafa innkaup og annað stússeri. Er með mikil plön um að kíkja oft á kaffihús næstu daga, rækta þá vini sem eru ekki á kafi i lestri sjálfir og bara dúllast með eitt og annað.

Er búin að vera dugleg i dag, þrátt fyrir hófið í gær vaknaði min frekar snemma og þreif allt húsið og er núna að bíða eftir að þvottavélin klári svo ég komist út i góða veðrið. Binni er að vinna núna en ég er að hugsa um að tæla hann í að gera eitthvað sniðugt með mér á eftir. Annars ætti maður nú að kíkja í búðirnar og verðlauna sig svolítið - hehe.

Það var voða gaman í gær, kíktum aðeins á bódega strax eftir próf en það þurfti 3 tilraunir til að finna stað sem var ekki troðfullur og það bara kl 3!! Reyndar föstudagur en greinilegt að fólk var að fá bæturnar sínar og átti ennþá pening. Náði rétt að hlupa heim og skifta prófalook-inu út með djammlook-inu áður en haldið var áfram i julefrokost hjá Idu. Það er alltaf jafn mikið stuð i gamla bekknum, ekkert nema snillingar sem maður sér alltof sjaldan, þannig að það er óþarft að taka það fram að það hafi verið gaman. Ég er samt hálf abbó úti stelpurnar, Malene og Soffie eru að fara til Tanzaníu á fimmtudaginn og Maja til Ástralíu á morgun, vildi að ég væri að fara eitthvert langt í burtu - allrahelst i sól og hita en það verður nú líklega að bíða í ár í viðbót... maður má nú samt alltaf láta sig dreyma.

fimmtudagur, desember 2

19 timar i næsta prof

Já það er farið að styttast i ansi margt, ekki nema 22 dagar til jóla, 16 dagar í heimferð og já, 19 tímar i næsta próf. Ég ætlaði mér nú að vera búin að læra mun meira af þessari vitleysu en tekist hefur en ég get samt ekki sagt annað en að ég hafi nú verið frekar dugleg að lesa.

Ætla að nota eftirmiddaginn i að lesa 2 kafla aftur og svo á bara að læra listann með eitrinu utanað - svona eins og maður lærði ljóð i barnaskóla. Ég man nú minnst af þessum ljóðum sem við lærðum, kemur mér alltaf jafn mikið á óvart þegar ég rekst á fólk sem virðist kunna þetta ennþá. En svo er annað sem bera situr eftir td. aus, bei, mit, nach, zeit, von, zu, gegenuber, I love you... þetta man maður, en svo gæti ég ekki fyrir mit litla líf spurt hvar ég gæti fundið næsta banka, eða hvað kaffið kosti ef ég ætti að redda mér i þýskalandi.
Hef reyndar heyrt sögur af fólki sem hefur farið með gamlar Kaaber kaffi auglýsingar á dánarbeði sínu því það mundi ekki annað! já spáiði í því, hvernig fer þá með okkar kynslóð?

Hmmm... annars lítur bara út fyrir það að ég nái að sinna vinum mínum aðeins eftir þetta próf á morgun. Það ætti að vera nóg að lesa i rúma viku fyrir næsta próf og ég fer ekki í það fyrr en 15. svo það verður hægt að taka fleiri kvöld og kanski nokkra daga i frí. Það verður ekki leiðinlegt. Byrjar reyndar á svaka jóla, kveðju, prófloka, afmælis og endurfagnaðar partýi annaðkvöld með krökkunum úr gamla bekknum mínum & nokkrum öðrum, góður hópur sem klikkar aldrei. Hugsiði nú endilega fallega til mín á morgun frá 8 til 3, ég vona að þið fáið góða helgi, set kanski inn nokkrar línur á laugardaginn ef heilsan leyfir :o)

miðvikudagur, desember 1


Afmælisbarn dagsins! Litlibrodir minn hann Gudmundur Arni er 4.ara i dag. Posted by Hello