Ég er búin að hafa það svo gott um jólin að ég hef hreinlega ekki nennt því að vera að krota eitthvað hérna á síðuna. En eftir vikulangt stanslaust át og langar vökunætur og daga sem hverfa jafn snögglega og þeir koma, er kanski kominn tími á að slengja inn eins og nokkrum línum.
Ég er orðinn fastagestur hjá viðgerðarþjónustu Símans i Ármula, orðin frekar pirruð á þeim stað og aumingja Þórir (eitt af andlitum þeirra út á við) fékk heldur betur að heyra það þegar ég kom rúmum hálftíma (falleg leið að segja tæpum klikkutíma) of seint á sund-stefnumótið okkar í dag, eftir 5. heimsókn mína á Símann. Var búið að lofa því i gær að ég gæti náð i nýjan síma kl hálf 4 i dag, en ég er alltaf jafn seinheppin og fór tómhennt þaðan rúmlega 5 eftir meira en klukkustunda bið - strákurinn á símanum vissi að ég væri í fríi og hefur eflaust haldið að ég hefði ekkert betra við minn tíma að gera.
Ég var voðalega fegin þegar ég rakst á Guggu fyrir utan laugina (alveg jafn sein og ég) og ekki minna glöð þegar við fundum Þóri enn í lauginni, var orðin viss um að þau væru annaðhvort löngu farin eða komin í frekar mikla fílu, en svo var sem betur fer ekki. Við skemmtum okkur konunglega í lauginni og ætlum að gera þetta að föstum lið.
Mér dauðbrá i dag þegar það gékk upp fyrir mér að það væri gamlársdagur á morgun!! tíminn ekkert smá fljótur að líða og mín ekki einu sinni komin með áramótaheit. Maður ætlar líka alltaf að gera svo mikið þegar maður kemur heim en endar oftast á að klikka á meirihlutanum, ég er samt komin með lengri lista yfir það sem ég hef EKKI náð að gera ennþá en oftast, líklega því þetta er lengra stopp og mín óstressuð. Verð nú að fara í eitthvað af þessu praktíska svo maður hafi tíma fyrir vinina þegar þeir koma úr jólastressinu og vilja leika.
Jæja, ætla að skríða upp í rúm núna og halda áfram með Kleifarvatn.
Óska hérmeð landsmönnum öllum nær og fjær, hamingju og velfarnaðar á komandi ári.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli