Jæja, betra seint en aldrei. Ég veit að ég gæti alveg verið duglegri að henda inn nokkrum línum hérna en þið fáið bara fleiri línur með lengra millibilli, hef hvort sem er ekki svo mikið að segja.
Sit núna inn í stofu og er að bíða eftir að suðan komi upp á hangikjötinu, mér hefur sem sagt ekki verið hent út þrátt fyrir lyktina af hákarlinum, en það hefur nú samt mikið verið kvartað yfir honum og harðfisknum, annars eru birgðirnar að verða búnar.
Við Brynjulf héldum smá party á laugardaginn. Og þó ég segi sjálf frá þá varð það bara frekar vel heppnað. Fólk mætti auðvitað ekki á svæðið á réttum tíma en flestir mættu þó og það hefði ekki verið pláss fyrir fleiri í kofanum. Þetta var sko alvöru party, bæði kvartanir frá nágrönnum og smotterís skemmtir á innbúi, en allir skemmtu sér vel og það er nú það sem máli skiptir. Ég er hrædd um að ég eigi bara ansi skemmtilega vini :o) Kíktum svo aðeins i bæinn þar sem var dansað fram á nótt. Það kom sér vel að klukkunni var breytt morguninn eftir - ekki að það hafi verið nóg, hrædd um að aldurinn sé farinn að segja til sín!
Sunnudagurinn fór í að jafna sig, ég var nú ekki lengi að fresta því að fara yfir prófspurningar með stelpunum, en ég mætti nú samt i afmæli hjá Guðrúnu Maríu sem varð þrítug þennan dag. Var voðalega gaman að sjá hana en hun hefur verið i felum á Íslandi undanfarið. Svo var það bara sófinn og ég, ég og sófinn, það sem eftir var dags.
Hef síðan verið að reyna að ná upp því sem ég tapaði í lestri en það gengur hægt. Það er bara orðið hættulega stutt i prófin hjá mér og nóg eftir að lesa og spotta. Ég tek mér nú samt aðra pásu næstu helgi, Lárey vinkona er að koma í heimsókn og hlakkar okkur Guggunum mikið til. Við erum báðar að fara yfirum útaf yfirvofandi prófum en ég hugsa að við höfum bara gott af því að slaka svolítið á. Við lesum orðið frá morgni til kvölds og ef við föllum af því að við tókum 2 daga frí þá verður það bara að vera þannig. Stelpan á líka afmæli á sunnudaginn svo það hefði nú verið frídagur hvort sem er.
Jæja, þetta verður að vera nóg i bili. Ég á víst stefnumót við patalogíubækurnar ;o)
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli